Beckham kvartar yfir leikmönnum Makedóníu

Enskir landsliðsmenn fagna Beckham eftir mark hans gegn Makedóníu.
Enskir landsliðsmenn fagna Beckham eftir mark hans gegn Makedóníu. AP

Nokkrir leikmenn makedónska landsliðsins, sem mætti Englendingum í landsleik undankeppni EM í gær, hræktu á David Beckham, fyrirliði enska liðsins. Þá segir David Beckham frá því í samtali við breska dagblaðið Independent að einn leikmaður í landsliði Makedóníu hafi sagt við sig að hann kæmist ekki lifandi frá viðureigninni. Englendingar unnu leikinn 2:1.

Sven-Goran Eriksson þjálfari enska liðsins staðfestir að Beckham hafi reiðst í nokkur skipti eftir aðfarðir leikmanna Makedóníu. Eriksson segir að hann hafi nýtt hálfleikinn til þess að róa Beckham niður eftir átök inni á vellinum, að sögn soccernet.com. "Ég held að David Beckham hafði staðið sig vel. Hann er mikilvægur leikmaður fyrir okkur og er hjarta liðsins. Hann vissi hversu mikilvægur þessi leikur var fyrir okkur, en var í uppnámi þegar hann kom inn í búningsherbergið í leikhléi. Hann var hins vegar fljótur að róa sig aftur. Svo sagði hann strákunum að koma út á völl og ljúka þessu," sagði Eriksson.

Beckham segir jafnframt að Emile Heskey, leikmaður Liverpool, hafi þurft að þola kynþáttafordóma á vellinum. Beckham sagði að kynþáttafordómar væru greinilega enn við lýði í nokkrum löndum. "Við vorum viðbúnir kynþáttafordómum í leiknum þar sem slíkt hafði átt sér stað í ungmennalandsleik þjóðanna," segir Beckham.

Það voru Wayne Rooney og David Beckham sem gerðu mörk Englendinga í leiknum.

Aðrir leikir í undankeppni EM í gær

Ítalía-Wales 4:0

Holland-Austurríki 3:1

Bosnía-Noregur 1:0

Svíþjóð-San Marínó 5:0

Azerbaijan-Finnland 1:2

Írland-Rússland 1:1

mbl.is