Arnór bikarmeistari með Heerenveen

Arnór Smárason er bikarmeistari í Hollandi.
Arnór Smárason er bikarmeistari í Hollandi. mbl.is/G.Rúnar

Arnór Smárason varð í kvöld hollenskur bikarmeistari í knattspyrnu með Heerenveen þegar lið hans sigraði Twente, lið Bjarna Þórs Viðarssonar, í vítaspyrnukeppni eftir að framlengdur úrslitaleikur liðanna endaði 2:2.

Arnór varð að gera sér það að góðu að sitja allan tímann á varamannabekknum að þessu sinni en hann hefur komið mikið við sögu hjá liðinu í vetur og var fjórði markahæsti leikmaður liðsins í úrvalsdeildinni með 5 mörk. Þar endaði Heerenveen í fimmta sæti.

Bjarni Þór Viðarsson var ekki í leikmannahópi Twente sem varð í öðru sæti í úrvalsdeildinni og varð því að gera sér að góðu tvenn silfurverðlaun á tímabilinu.

mbl.is