Grétar Rafn með fyrirliðabandið

Grétar Rafn Steinsson í leiknum gegn Hollendingum um síðustu helgi.
Grétar Rafn Steinsson í leiknum gegn Hollendingum um síðustu helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grétar Rafn Steinsson verður með fyrirliðabandið þegar Íslendingar mæta Makedóníumönnum í undankeppni HM í knattspyrnu í Skopje í dag klukkan 15.45. Grétar leysir Hermann Hreiðarsson af hólmi en Hermann tekur út leikbann sem og þeir Indriði Sigurðsson og Aron Einar Gunnarsson.

Þetta verður fjórði landsleikur Íslands og Makedóníu. Íslendingar hafa tvívegis lagt Makedóníumenn að velli á Laugardalsvellinum en töpuðu, 1:0, í Skopje í undankeppni HM árið 1997. Þjóðirnar áttust síðast við á Laugardalsvellinum í október í undankeppni HM þar sem Íslendingar höfðu betur, 1:0, og skoraði Veigar Páll Gunnarsson sigurmarkið.

Leikurinn hefst eins og áður segir klukkan 15.45 og þess má geta að leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

mbl.is