Guðný Björk í fjórðu aðgerðina

Guðný Björk Óðinsdóttir.
Guðný Björk Óðinsdóttir. Ljósmynd/Algarvephotopress

„Ég er ekki tilbúin til að leggja skóna á hilluna,“ sagði Guðný Björk Óðinsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu við Kristianstadsbladet, en nú er orðið ljóst að hún þarf í fjórða sinn á ferlinum að gangast undir aðgerð vegna krossbandsslita í hné.

Guðný Björk, sem er aðeins 24 ára, sleit krossband í fjórða sinn á æfingu með landsliðinu á Evrópumótinu í Svíþjóð í síðasta mánuði en hún fer í aðgerðina í næstu viku.

„Þetta er eini möguleikinn ef ég vil spila fótbolta aftur og það vil ég gera,“ sagði Guðný Björk. Samningur hennar við Kristianstad rennur út í október.