Sonur Eiðs Smára æfir með Groningen

Sveinn Aron Guðjohnsen í leik með CF Gava.
Sveinn Aron Guðjohnsen í leik með CF Gava. Twitter

Sveinn Aron Guðjohnsen, sonur Eiðs Smára Guðjohnsen, leikmanns Bolton Wanderers og íslenska landsliðsins, æfir þessa daganna með FC Groningen í Hollandi, en þetta staðfesti Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður hjá Total Football við mbl.is í dag.

Sveinn Aron, sem er fæddur árið 1998, spilaði lengi vel með yngri liðum Barcelona á meðan Eiður Smár lék með Börsungum, en eftir veru sína þar hélt hann í lið í nágrenninu og má þar nefna lið á borð við CF Gava.

Hann spilar stöðu framherja eins og Eiður, en Sveinn hefur verið að æfa og spila með HK hér á landi.

Hann reynir nú fyrir sér hjá hollenska úrvalsdeildarliðinu Groningen, en hann mun æfa með liðinu til 14. júní næstkomandi. Hann mun æfa með U19 ára liði félagsins.

Sveinn á að baki 9 landsleiki og 1 mark fyrir U17 ára landslið Íslands.

mbl.is