„Í lausu lofti síðustu vikurnar“

Ragnar Sigurðsson
Ragnar Sigurðsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er svolítið skrýtin hjá mér og ég er búinn að vera í lausu lofti síðustu vikurnar í fyrsta skipti á ferlinum,“ sagði landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson í samtali við mbl.is í dag.

Ragnar er samningsbundinn enska B-deildarliðinu Fulham en var lánaður til rússneska liðsins Rubin Kazan síðastliðið vor. Hann hefur spilað 12 af 20 leikjum liðsins í deildinni á tímabilinu en þeir verða væntanlega ekki fleiri því Ragnar er staðráðinn í að komast burt frá félaginu nú í janúarglugganum. Mikil óreiða er í herbúðum liðsins og hafa leikmenn ekki fengið greidd laun  síðustu mánuðina.

„Ég er svo sem ekkert stressaður yfir þeirri stöðu sem ég er í. Það er nokkuð víst að ég er að fara frá Rubin Kazan og ég er með nokkra möguleika opna. Umboðsmaður minn er að ræða við þrjú félög sem stendur og til að mynda er eitt sem ég gæti þess vegna gengið til liðs við í dag ef ég vildi. Ég vil hins vegar fara vel yfir þetta áður en ég ákveð næsta skref og velja vel. Ég hugsa val mitt út frá landsliðinu, að halda minni stöðu þar og vera í góðu formi þegar HM skellur á. Ef ekkert lið væri búið að hafa samband þá yrði ég kannski órólegur en þegar möguleikar eru fyrir hendi er ég alveg rólegur,“ sagði Ragnar í samtali við mbl.is en hann hefur verið heima á Íslandi yfir jól og áramót og haldið sér í formi hér heima.

Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson. AFP

Fulham út úr myndinni

„Meðan ég er í þessari stöðu hef ég ekki viljað vera að sprikla á gervigrasi heldur hef ég verið í tækjasalnum í Fylkishöllinni. Ég er bara í toppformi og það er eiginlega í fyrsta skipti sem ég hef haldið forminu í fríinu.“

Samningur Ragnars við Fulham rennur út í sumar en spurður hvort einhver möguleiki sé á að hann snúi aftur til Fulham og spili með liðinu út leiktíðina sagði Ragnar:

„Nei. Við höfum rætt saman og það er hvorki vilji af minni hálfu né Fulham til að ég fari aftur þangað. Það sem ég er að skoða núna er að fara til félags á lán út tímabilið. Ég held að það sé best í stöðunni fyrir mig núna frekar en að gera samning til frambúðar. Ég held að það sé alveg pottþétt að ég hafi spilað minn síðasta leik með Rubin Kazan,“ sagði Ragnar en deildarkeppnin í Rússlandi er í fríi fram í byrjun mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert