Reyndum að ráðast á þá frá fyrstu mínútu

Mourinho gengur vonsvikinn af velli í kvöld.
Mourinho gengur vonsvikinn af velli í kvöld. AFP

„Fyrsta markið var alltaf að fara að verða mikilvægt. Ekki bara því fyrri leikurinn var markalaus, því þetta er stór leikur," sagði Jose Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United eftir 2:1-tap geng Sevilla í Meistaradeild Evrópu í kvöld. United er fallið úr leik í keppninni eftir tapið.

Illa gekk fyrir United að skapa sér alvöru færi og stjórna leiknum, en Mourinho segir sína menn hafa reynt að sækja frá byrjun.

„Við reyndum að ráðast á þá frá fyrstu mínútu en við náðum ekki að skora. Sevilla hélt boltanum vel og stjórnaði leiknum vel. Við fengum góð færi til að skora, en þetta varð erfitt eftir fyrsta markið og ómögulegt eftir annað markið."

„Við náðum fínum köflum, þó við stjórnuðum ekki leiknum. Það var ekkert að leikmönnunum mínum eða hvernig þeir reyndu að spila. Svona er fótboltinn og það er annar dagur á morgun og annar leikur á laugardaginn."

„Ég er ánægður með að leikmenn eru ekki að fela vonbrigðin sín, en við höfum engan tíma fyrir dramatík," sagði Mourinho. 

mbl.is