Leggur meiri áherslu á Króatíu en Ísland

Javier Hernández verður líklega ekki í byrjunarliði Mexíkó gegn Íslandi.
Javier Hernández verður líklega ekki í byrjunarliði Mexíkó gegn Íslandi. AFP

Javier Hernández, framherji enska knattspyrnuliðsins West Ham, verður ekki í liði Mexíkó gegn Íslandi í vináttulandsleiknum gegn Íslandi í Santa Clara aðra nótt, samkvæmt mexíkóska netmiðlinum mediotiempo.com.

Sagt er að Juan Carlos Osorio, hinn kólumbíski þjálfari Mexíkóa, leggi meiri áherslu á leikinn gegn Króatíu næsta þriðjudagskvöld, heldur en leikinn gegn Íslandi, vegna þess að króatíska liðið sé mjög svipað heimsmeistaraliði Þjóðverja, sem eru meðal mótherja Mexíkó á HM í Rússlandi í sumar.

Samkvæmt mediotiempo hafa uppstillingar á æfingunum hjá Osorio fyrir Íslandsleikinn bent til þess að Hernández, Guillermo Ochoa, markvörður frá Standard Liege, Hirving Lozano frá PSV Eindhoven, Tecatito Corona frá Porto og Hector Moreno frá Real Sociedad verði hvíldir fyrir leikinn gegn Króötum í Dallas.

Hins vegar liggi fyrir að Jesús Corona, markvörður Cruz Azul í Mexíkó, fái tækifæri gegn Íslandi í stað Ochoa, sem sé hins vegar öruggur með að vera áfram aðalmarkvörður liðsins.

Í vörninni gegn Íslandi verði Carlos Salcedo frá Frankfurt, Hugo Ayala frá UNAL í Mexíkó, Nestor Araujo frá Santos Laguna í Mexíkó og Jesús Gallardo frá UNAM.

Á miðjunni sé baráttan um þrjú sæti á milli Jesús Molina frá Monterrey í Mexíkó, Jonathan González (18 ára) frá Monterrey, Andrés Guardado fyrirliða frá Real Betis, Héctor Herrera frá Porto og Marco Fábian frá Frankfurt.

Fremstu menn verði örugglega Raúl Jiménez frá Benfica hægra megin, Carlos Vela frá Los Angeles vinstra megin og Oribe Peralta frá América í Mexíkó verði fremsti maður.

Mikil reynsla er í þessu mexíkóska liði en Guardado fyrirliði er þar leikjahæstur með 142 landsleiki. Hernández kemur næstur honum með 100 og Ochoa markvörður er með 91 leik. Moreno, Herrera, Vela, Peralta og Jiménez eru með á bilinu 60 til 90 leiki og varamarkvörðurinn Corona á 50 landsleiki að  baki en hann er 37 ára gamall og elstur í hópnum.

mbl.is