Þetta er mjög sársaukafullt

Byrjunarlið Barcelona í leiknum í gær.
Byrjunarlið Barcelona í leiknum í gær. AFP

Andrés Iniesta og samherjar hans í Barcelona voru gráti nær þegar flautað var til leiksloka í viðureign liðsins gegn Roma í síðari leiknum í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöld.

Roma tókst það sem fáir áttu von á. Þeim tókst að slá Barcelona út þrátt fyrir að hafa tapað fyrri leiknum, 4:1. Rómverjar fögnuðu 3:0 sigri á ólympíuleikvanginum í Róm og eru í undanúrslitunum í fyrsta skipti í mörg herrans ár.

„Þetta er mjög sársaukafullt því enginn átti von á þessu eftir forskotið sem við vorum með fyrir leikinn. Þegar þú gerir hlutina illa og gerir þig sekan um mörg mistök þá getur illa farið. Við náðum aldrei að komast inn í leikinn og þetta eru mikil vonbrigði eftir þetta góða tímabil sem við höfum átt,“ sagði Iniesta við sjónvarpsstöðina í Katalóníu eftir leikinn.

Roma var síðast í undanúrslitunum árið 1984 en þá fór liðið alla leið í úrslit en tapaði úrslitaleiknum á móti Liverpool á heimavelli. Hver veit nema þau mætist aftur í úrslitaleiknum en Liverpool er eins og Roma komið í undanúrslitin eftir að hafa fellt Manchester City úr leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert