Bale ósáttur við sína stöðu

Gareth Bale fagnar seinna marki sínu í sigrinum á Liverpool …
Gareth Bale fagnar seinna marki sínu í sigrinum á Liverpool í gærkvöld. AFP

Gareth Bale, hetja Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu gegn Liverpool í gærkvöld, er ósáttur við stöðu sína hjá spænska félaginu og ætlar að fara yfir málin með umboðsmanni sínum fljótlega.

Bale var aðeins 20 sinnum í byrjunarliði í 38 leikjum Real í spænsku 1. deildinni í vetur og einungis þrisvar í Meistaradeildinni. Hann kom inná sem varamaður á 60. mínútu gegn Liverpool í gærkvöld þegar staðan var 1:1 og tryggði liðinu Evrópumeistaratitilinn með tveimur mörkum. Það fyrra gerði hann með stórbrotinni hjólhestaspyrnu en seinna markið kom eftir mikil mistök Lorius Karius markvarðar Liverpool sem missti boltann framhjá sér eftir skot Bale af löngu færi.

„Ég vil spila í hverri viku og það var ekki raunin á þessu keppnistímabili. Ég var meiddur í fimm eða sex vikur en heill að öðru leyti. Ég þarf að setjast niður með umboðsmanni mínum í sumar og fara yfir stöðuna. Ég var að sjálfsögðu mjög ósáttur við að vera ekki í byrjunarliðinu, fannst ég eiga það skilið, en það er stjórinn sem ákveður þetta. Það besta sem ég gat gert var að koma inná og hafa áhrif á leikinn, og það tókst mér svo sannarlega," sagði Bale við BT Sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert