Elías Már skoraði þrennu í Svíþjóð

Elías Már Ómarsson.
Elías Már Ómarsson. Ljósmynd/Twitter-síða Gautaborgar

Elías Már Ómarsson lék á als oddi í dag og skoraði öll þrjú mörk Gautaborgar sem vann 3:0-heimasigur gegn Brommapojkarna í efstu deild Svíþjóðar í knattspyrnu.

Framherjinn var í byrjunarliðinu og spilað allan leikinn en fyrsta markið skoraði hann snemma, á 20. mínútu, eftir sendingu Vajebah Sakor. Elías gerði svo út um vonir gestanna, sem brenndu af vítaspyrnu fyrr í leiknum, á 85. mínútu með öðru marki sínu og aðeins þremur mínútum síðar fullkomnaði hann þrennuna.

Elías hefur nú skorað 8 mörk í deildinni á tímabilinu og er orðinn þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar.

Gautaborg lyfti sér upp í 10. sæti deildarinnar með sigrinum en liðið er nú með 19 stig að 15 umferðum loknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert