Munum fá viðbrögð frá íslenska liðinu

Roberto Martinez landsliðsþjálfari Belga á Laugardalsvelli í kvöld.
Roberto Martinez landsliðsþjálfari Belga á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.is/Eggert

Roberto Martinez, landsliðsþjálfari Belga, reiknar með erfiðum leik gegn Íslendingum þegar þjóðirnar eigast við í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu á Laugardalsvellinum annað kvöld.

Íslendingar hófu keppni í Þjóðadeildinni á hörmulegan hátt á laugardaginn en íslenska liðið var sundurspilað af Svisslendingum sem fögnuðu 6:0 sigri. Þetta verður fyrsti leikur Belga í Þjóðadeildinni en þeir hituðu upp fyrir leikinn gegn Íslendingum með því að vinna öruggan 4:0 sigur gegn Skotum á Hampden Park á föstudaginn.

„Frammistaða íslenska liðsins á mót Svisslendingum var ekki góð en við búumst við öðruvísi leik hjá Íslendingum á morgun. Þeir gátu lítið gert við fyrstu þremur mörkunum og þegar þú lendir 3:0 undir verður þetta allt annar leikur,“ sagði Martinez á fréttamannafundi á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við vitum að við munum fá viðbrögð frá íslenska liðinu á morgun. Heimavöllur þess er mjög sterkur þar sem þeir spila góðan varnarleik og eru hættulegir í skyndisóknum. Við megum ekkert slaka á og við verðum að byrja leikinn að fullum krafti. Ísland hefur verið með á síðustu tveimur stórmótum og vann sinn riðil í undankeppni HM þar sem liðið vann lið eins og Króatíu, Úkraínu og Tyrkland tvívegis. Við verðum að vera mjög einbeittir,“ sagði Martinez, sem hefur svo sannarlega gert það gott með belgíska liðið frá því hann tók við því fyrir rúmu tveimur árum.

Hrósaði Gylfa Þór

Martinez var spurður út í Gylfa Þór Sigurðsson en landsliðsþjálfarinn segist hafa fylgst vel með Gylfa á Englandi en Martinez var stjóri hjá Wigan, Swansea og Everton áður en hann tók við landsliðsþjálfarastarfinu.

„Ég hef fylgst vel með Gylfa og séð han gera það gott með þeim liðum sem hann hefur spilað með á Englandi. Hann var hjá Tottenham og varð svo alvöruleikmaður þegar hann spilaði með Swansea. Hann var seldur til Everton fyrir 50 milljónir evra og það segir okkur mikið um styrkleika hans.

Hann er frábær sendingarmaður og er góður að spila á milli línanna. Það er erfitt að finna leikmann eins og hann og hann er að gera það gott í sterkustu deild í heimi,“ sagði Martinez, sem getur teflt fram sínu sterkasta liði á Laugardalsvellinum annað kvöld en flautað verður til leiks klukkan 18.45.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert