„Ég er 33 ára en er enn að þroskast og vaxa hérna“

Sif Atladóttir er tiltefnd sem leikmaður ársins í Svíþjóð.
Sif Atladóttir er tiltefnd sem leikmaður ársins í Svíþjóð. mbl.is/Eggert

„Ég er ótrúlega stolt,“ segir Sif Atladóttir, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, en hún er ein þriggja leikmanna sem tilnefndir eru sem verðmætustu leikmenn sænsku úrvalsdeildarinnar á leiktíðinni sem nú er að klárast.

Sif hefur leitt lið sitt Kristianstad áfram til fyrstu verðlaunanna í sögu félagsins, aðeins tveimur árum eftir að liðið var hársbreidd frá því að falla niður um deild. Þó að spennandi lokaumferð sé eftir í deildinni þá er ljóst að Kristianstad endar í 4. sæti og hlýtur bronsverðlaun, en í Svíþjóð er það þannig að sigurvegarar deildarinnar fá gull, liðin í 2. og 3. sæti fá stórt og lítið silfur, og liðið í 4. sæti brons.

Aðdáendum íslenska landsliðsins ætti ekki að koma á óvart að Sif hafi spilað vel í Svíþjóð. Fyrrnefnd viðurkenning kom henni þó sjálfri á óvart, en það skýrist á verðlaunahófinu Fotbollsgalan þann 12. nóvember hvort Sif, Julia Karlernäs úr Piteå eða Caroline Seger úr Rosengård verður fyrir valinu sem mikilvægasti leikmaður deildinnar.

„Ég bjóst ekki við þessu. Ég fékk skilaboð frá liðsfélaga [í gærmorgun] sem óskaði mér til hamingju og ég vissi ekkert um hvað hún var að tala. Síðan sá ég hvað málið var og fannst þetta bara frekar ótrúverðugt. Ég þurfti að sitja aðeins og melta þetta, en ég er bara ótrúlega stolt og finnst það mikill heiður að vera tilnefnd til þessara verðlauna með þessum leikmönnum,“ segir Sif.

Líkt og hennar er von og vísa er hún fljót til að benda á stuðninginn sem hún fær frá liðsfélögum og þjálfurum. Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað Kristianstad samfleytt frá árinu 2009 en þær Sif voru áður saman hjá Val. Sif kom til Kristianstad frá Saarbrücken í Þýskalandi árið 2011 og eiginmaður hennar, Björn Sigurbjörnsson, hefur verið aðstoðarþjálfari liðsins síðan þá.

„Við sem lið vorum með langtímamarkmið um að komast í hóp fjögurra efstu liðanna, og skrá nýjan kafla í sögu félagsins með því að fá fyrstu medalíuna. Við slógum stigamet liðsins fyrir þremur umferðum og árið hefur gengið ótrúlega vel. Ég hef sjálf í ár verið með mjög jafna frammistöðu og náð að hækka „lægsta standardinn“ hjá mér. Þetta er liðsfélögum mínum og þjálfurum að þakka. Ég hefði ekki fengið neina tilnefningu án þeirra,“ segir Sif.

„Ég hef ótrúlega mikla trú á því sem við erum að gera hérna og það endurspeglast í því hvernig ég æfi og spila. Ég hef gríðarlega mikið hjarta gagnvart þessu félagi og vegferðinni sem við höfum verið á. Þetta hefur verið mikið ævintýri og við farið frá því að vera nánast nýliðar í deildinni þegar ég kem inn, verið nærri því að falla og rambað á barmi gjaldþrots, í að fara í 5. sæti í fyrra og ná svo loksins medalíu eftir öll þessi ár,“ segir Sif og bætir við:

Tárin láku eftir bronsið

„Það segir svolítið mikið að við séum svona mörg ennþá hérna að vinna í því sem við höfum alltaf haft trú á, og það er ótrúlega gaman að ná markmiðinu um medalíu eftir allt erfiðið. Maður sá það kannski best þegar samherji minn, Mia Carlsson sem er búin að vera í liðinu svo lengi, sat inni í klefa og grét eftir að við tryggðum okkur bronsið. „Ég trúi þessu ekki, við náðum markmiðinu okkar,“ sagði hún. Þá kveikti ég loks á því hvað við hefðum afrekað.“

Viðtalið við Sif má sjá í heild sinni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert