Matthías Noregsmeistari í fjórða sinn

Matthías Vilhjálmsson hefur nú fagnað norska meistaratitlinum fjórum sinnum.
Matthías Vilhjálmsson hefur nú fagnað norska meistaratitlinum fjórum sinnum.

Rosenborg varð í dag norskur meistari í knattspyrnu fjórða árið í röð. Matthías Vilhjálmsson hefur leikið með liðinu öll árin og átt sinn þátt í velgengninni.

Enn er ein umferð eftir af norsku úrvalsdeildinni en með 1:0-útisigri á Start í dag er Rosenborg með sjö stiga forskot á næsta lið, Molde. Matthías átti mun ríkari þátt í síðustu þremur titlum en á þessu tímabili hefur hann aðeins leikið tvo deildarleiki í byrjunarliði, og fimm sinnum komið inn á sem varamaður.Hann var ekki í leikmannahópi Rosenborgar í dag.

Hvorki Aron Sigurðsson né Guðmundur Andri Tryggvason voru í leikmannahópi Start sem er komið í erfiða stöðu í ótrúlegri fallbaráttu deildarinnar. Sandefjord er á botninum, í 16. sæti, og er fallið niður um deild, eftir 1:1-jafntefli við Sarpsborg í dag. Emil Pálsson lék í 70 mínútur fyrir Sandefjord en Orri Sigurður Ómarsson var ekki með Sarpsborg.

Fyrir ofan Sandefjord skilja svo aðeins þrjú stig að liðin í 11. og 15. sæti. Stabæk er í 15. sæti með 28 stig, Start í 14. sæti með 29, Lilleström með 29, Strömsgodset 30 og Bodö/Glimt 31. Liðin í 15. og 16. sæti falla en liðið í 14. sæti spilar í umspili við lið úr 1. deild.

Arnór Smárason lék 77 mínútur fyrir Lilleström í 2:2-jafntefli við Strömsgodset en með því að ná þessu jafntefli komst liðið upp í 13. sæti, eins og fyrr segir.

mbl.is