Sárt tap hjá Arnóri og samherjum hans

Arnór í baráttunni í snjókomunni í Moskvu í kvöld.
Arnór í baráttunni í snjókomunni í Moskvu í kvöld. AFP

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson lék allan tímann með CSKA Moskva þegar liðið tapaði á heimavelli fyrir tékkneska liðinu Vikt­oria Plzen 2:1 í næstsíðustu umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

Nikola Vlasic kom CSKA í forystu með marki úr vítaspyrnu á 10. mínútu leiksins. Tékkarnir fengu gott tækifæri til að jafna metin undir lok fyrri hálfleiks en Igor Aginfeev varði þá vítaspyrnu frá Roman Prochazka.

Roman Prochazka bætti fyrir vítaklúðrið þegar hann jafnaði metin á 57. mínútu og það var síðan Lukas Hejda sem skoraði sigurmarkið 10 mínútum fyrir leikslok. Arnór lék allan tímann í framlínu CSKA og átti fína spretti og náði tveimur ágætum skotum á markið í seinni hálfleik. Hörður Björgvin Magnússon tók út leikbann í liði Rússanna.

Tapið gerði það að verkum að veik von CSKA um að komast í 16-liða úrslitin er úr sögunni en liðið er með 4 stig eins og Vikt­oria Plzen og berjast þau um þriðja sætið sem veitir þátttökurétt í Evrópudeildinni. Real Madrid og Roma eru komin áfram eftir þessi úrslit.

Ajax er komið í 16-liða úrslitin eftir 2:0 sigur á AEK Aþenu í Grikklandi þar sem Dusan Tadic skoraði bæði mörk Ajax á síðustu 22 mínútum leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert