María enn frá vegna höfuðmeiðsla

María Þórisdóttir með treyju Chelsea.
María Þórisdóttir með treyju Chelsea. Ljósmynd/Chelsea

Norska landsliðskonan María Þórisdóttir, leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Chelsea, hefur ekkert spilað í 44 daga eða frá því hún fékk þungt höfuðhögg í leik með Chelsea gegn Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í lok október. María fékk heilahristing og það í þriðja sinn.

„Ég hef prófað að hlaupa aðeins og gera æfingar án bolta. En það hefur leitt til ógleði og svima annaðhvort á meðan ég hef verið að æfa eða eftir á,“ segir María við TV2 í Noregi en hún er dóttir Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handknattleik.

María fékk heilahristing fyrir fjórum árum og var þá frá keppni í nokkra mánuði.

„Ég held að höfuðið þurfi bara þann tíma sem það tekur að jafna sig. Síðast tók það mig um þrjá mánuði að snúa aftur inn á völlinn svo það bendir til þess að það gæti tekið svo langan tíma að þessu sinni því miður,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert