Krefjast áframhaldandi leitar að Sala

Fólk hefur komið með blóm að mynd af Emiliano Sala …
Fólk hefur komið með blóm að mynd af Emiliano Sala fyrir utan æfingasvæði Nantes. AFP

Knattspyrnumenn um víða veröld hafa stigið fram á samfélagsmiðlum og krafist þess að leit að flugvélinni sem flutti Emiliano Sala, nýjasta leikmann Cardiff, og hvarf yfir Ermarsundi á mánudagskvöld verði haldið áfram.

Eftir ítarlega þriggja daga leit að vélinni sem var á leið frá Nantes í Frakklandi til Wales var ákveðið í gær að ekki yrði haldið áfram nema nýjar vísbendingar kæmu fram. Voru þá sagðar engar líkur á því að Sala eða flugmaðurinn David Ibbotson myndu finnast á lífi. Þrátt fyrir það hefur verið ákall um að halda í vonina og leita áfram.

Meðal leikmanna sem hafa stigið fram og óskað eftir áframhaldandi leit eru samlandar Sala frá Argentínu, Lionel Messi, Sergio Agüero, Nicolas Otamendi og Gonzalo Higuaín, svo einhverjir séu nefndir.

„Ef það er enn möguleiki, jafnvel þótt fjarlægur sé, þá verðum við að leita áfram. Allan minn kraft vil ég gefa til stuðnings fjölskyldu hans og vinum,“ sagði Messi í færslu á samfélagsmiðlum.  

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa sagt að mínútu þögn verði fyrir alla leiki í næstu umferð deildarinnar í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert