Jovic á leið til Real Madrid?

Luka Jovic í baráttunni við Jonathan Tah í landsleik Serba …
Luka Jovic í baráttunni við Jonathan Tah í landsleik Serba og Þjóðverja í mars á þessu ári. AFP

Luka Jovic, framherji þýska knattspyrnuliðsins Eintracht Frankfurt, er nú í viðræðum við spænska stórliðið Real Madrid um að ganga til liðs við félagið í sumar en það er spænski miðillinn AS sem greinir frá þessu.

Jovic er einn eftirsóttasti bitinn á markaðnum í dag en hann hefur raðað inn mörkunum í þýsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Alls hefur framherjinn skorað 17 mörk í 21 byrjunarliðsleik í deildinni á tímabilinu og þá hefur hann skorað 8 mörk í níu byrjunarliðsleikjum í Evrópudeildinni.

Þessi 21 árs gamli framherji gekk til liðs við Eintracht Frankfurt frá Benfica en undanfarin tvö ár hefur hann verið lánsamaður hjá þýska félaginu. Jovic var á skotskónum í fyrri leik Benfica og Eintracht Frankfurt í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í Portúgal í 4:2-sigri Benfica en seinni leik liðanna í gær lauk með 2:0-sigri Frankfurt.

Jovic var í byrjunarliði Eintracht Frankfurt í gær en var skipt af velli á 76. mínútu, en þýska liðið er komið áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar. Jovic gekk alfarið til liðs við félagið í apríl á þessu ári þegar þýska félagið nýtti sér forkaupsrétt sinn á leikmanninum en talið er að Real Madrid sé tilbúið að borga 60 milljónir evra fyrir serbneska landsliðsmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert