Griezmann sagður velja Barca

Antoine Griezmann.
Antoine Griezmann. AFP

Margir erlendir fjölmiðlar telja að Frakkinn Antoine Griezmann muni velja Barcelona ef Atletico Madríd samþykkir tilboð í heimsmeistarann sem tilkynnti óvænt í gær að hann vildi yfirgefa félagið. Lið Atletico virðist vera að liðast í sundur. 

Griezmann skrifaði undir fimm ára samning fyrir ári og því er ekkert stress á Atletico að selja kappann sem er 28 ára gamall. En þar sem hann hefur óskað eftir því að fara þá er reiknað með því að félagið muni taka tilboði sem er nógu hátt.

Samkvæmt Guardian er Barcelona tilbúið að reiða fram 125 milljónir evra en samkvæmt blaðinu var Griezmann mjög nærri því að fara til Barca síðasta sumar áður en hann tók þá ákvörðun að gera langtímasamning við Atletico. Mun hann enn hafa mestan áhuga á að ganga til liðs við spænsku meistarana. 

Griezmann sagði í tilkynningu til stuðningsmanna að hann sé að leita að nýrri áskorun. Hann er ekki sá eini því Lucas Hernandez er á leið til Bayern München fyrir 68 milljónir evra og Diego Godin er einnig á förum. Inter er talið líklegast til að næla í Godin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert