Barcelona að missa þolinmæðina

Matthijs De Ligt er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu og …
Matthijs De Ligt er eftirsóttur af stærstu liðum Evrópu og á erfitt með að ákveða sig. AFP

Spænska knattspyrnufélagið Barcelona er að missa þolinmæðina gagnvart Matthijs de Ligt, varnarmanni Ajax, en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Barcelona hefur náð samkomulagi við hollenska félagið um kaup á De Ligt en leikmaðurinn sjálfur hefur ekki ennþá tekið ákvörðun um það hvert hann ætlar sér að fara í sumar.

De Ligt er eftirsóttasti bitinn á leikmannamarkaðnum í sumar en Juventus, Manchester United, Liverpool og PSG hafa öll mikinn áhuga á varnarmanninum sem kostar 70 milljónir punda. Barcelona hefur boðið De Ligt góðan samning sem leikmaðurinn þarf bara að skrifa undir en hann á erfitt með að ákveða sig og eru forráðamenn Barcelona orðnir þreyttir á seinagangi leikmannsins.

De Ligt hefur sjálfur gefið það út að hann vilji fara til félags þar sem hann fær að spila reglulega. „Það er mikið af frábærum varnarmönnum í liði Barcelona en það hræðir mig ekki, ég fagna allri samkeppni. Auðvitað væri gaman að spila með Frankie de Jong og Lionel Messi en ég mun taka ákvörðun út frá því sem er best fyrir mig persónulega,“ sagði De Ligt í samtali við spænska blaðamenn í síðustu viku.

mbl.is