Däbritz hetjan gegn Spánverjum

Sara Däbritz fagnar sigurmarki sínu gegn Spánverjum með Alexöndru Popp.
Sara Däbritz fagnar sigurmarki sínu gegn Spánverjum með Alexöndru Popp. AFP
Sara Däbritz reyndist hetja þýska kvennalandsliðsins í knattspyrnu þegar liðið vann 1:0-sigur gegn Spáni í B-riðli heimsmeistaramótsins í Frakklandi á Hainaut-vellinum í Valenciennes í dag. Däbrtiz skoraði sigurmark leiksins á 42. mínútu en þýska liðið var sterkari aðilinn í leiknum.
Spánverjar voru meira með boltann en gekk illa að opna varnarmúr þýska liðsins en Däbritz nýtti sér vandræðagang í vörn spænska liðsins þegar hún kom Þjóðverjum yfir. Alexandra Popp átti fastan skalla að marki sem Sandra Panos varði í marki Spánverja. 
Irena Paredes, varnarmaður Spánverja, var alltof lengi að koma boltanum í burtu og Däbritz hirti frákastið og skoraði í tómt markið. Þýskaland er með fullt hús stiga eftir fyrstu tvær umferðirnar eða 6 stig en Spánverjar eru í öðru sæti riðilsins með 3 stig.
mbl.is