Dembélé falur fyrir rétta upphæð

Ousmane Dembélé er sagður falur fyrir rétta upphæð.
Ousmane Dembélé er sagður falur fyrir rétta upphæð. AFP

Ousmane Dembélé, sóknarmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona, er sagður vera til sölu en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Dembélé kom til Barcelona frá Borussia Dortmund sumarið 2017 en spænska félagið borgaði í kringum 140 milljónir evra fyrir leikmanninn sem hefur ekki átt fast sæti í liði Barcelona síðan hann kom.

Barcelona ætlar sér að styrkja leikmannahóp sinn í sumar og greindi stjórnarformaður Atlético Madrid frá því á dögunum að Antoine Griezmann væri að ganga til liðs við Barcelona. Griezmann er sagður kosta í kringum 120 milljónir evra og því þurfa Börsungar að selja leikmenn í sumar, ætli þeir sér að styrkja hópinn almennilega.

Dembélé hefur verið sterklega orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool undanfarin ár en Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, er mikill aðdáandi leikmannsins. Barcelona vill fá í kringum 90 milljónir punda fyrir kantmanninn sem getur spilað allar stöður fremst á vellinum en PSG og Manchester United eru einnig sögð áhugasöm um leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert