Þrjú íslensk mörk í sigri gegn toppliðinu

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Álasund í kvöld …
Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Álasund í kvöld gegn úrvalsdeildarliði Molde. Ljósmynd/Srdan Mudrinic

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði tvívegis fyrir B-deildarlið Álasund og Aron Elís Þrándarson eitt mark þegar liðið vann ótrúlegan 4:0-sigur gegn úrvalsdeildarliði Molde í 32-liða úrslitum norsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í dag.

Álasund leikur í norsku B-deildinni og var sigurinn því óvæntur en Molde er í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 25 stig eftir fyrstu tólf leiki sína. 

Þeir Hólmbert Aron, Aron Elís, Davíð Kristján Ólafsson og Daníel Leó Grétarsson voru allir í byrjunarliði Álasund og léku allan leikinn nema Aron Elís sem var skipt af velli á 82. mínútu. Þá var Matthías Vilhjálmsson á skotskónum fyrir Vålerenga sem tapaði 5:3 á útivelli fyrir Bærum en Matthías kom inn á sem varamaður á 55. mínútu og minnkaði muninn í 4:3 fyrir Válerenga sem er úr leik.

Dagur Dan Þórhallsson kom inn á sem varamaður á 74. mínútu hjá Mjöndalen í 1:0-sigri liðsins gegn Grorud sem leikur í norsku C-deildinni. Þá lék Samúel Kári Friðjónsson allan leikinn fyrir Viking sem vann 2:1-sigur gegn Sandnes Ulf og Arnór Smárason kom inn á sem varamaður hjá Lilleström á 66. mínútu þegar liðið tapaði 1:0 á útivelli fyrir Strömmen. 

Viðar Ari Jónsson lék allan leikinn fyrir Sandefjord sem féll úr leik gegn Odd en Odd hafði betur í vítakeppni. Emil Pálsson var ekki með Sandefjord vegna meiðsla. 

mbl.is