Íslendingaliðin í góðum málum

Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bröndby …
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Bröndby í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjörtur Hermannsson var í byrjunarliði danska félagsins Bröndby sem vann öruggan 4:1-sigur gegn Inter Turku frá Finnlandi í 1. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í Danmörku í kvöld. Hjörtur lék allan leikinn í hjarta varnarinnar en Kamil Wilczek skoraði tvívegis fyrir danska liðið í leiknum.

Arnór Ingvi Traustason sat allan tímann á varamannabekk sænska úrvalsdeildarliðsins Malmö sem vann stórsigur gegn norður-írska liðinu Ballymena United en leiknum lauk með 7:0-sigri Malmö í Svíþjóð.

Þá vann búlgarska liðið Levski Sofia 2:0-útisigur gegn Ruzomberok frá Slóvakíu en Hólmar Örn Eyjólfsson er enn að jafna sig á krossbandsslitum og lék ekki með Levski Sofia í kvöld. Seinni leikirnir fara allir fram eftir viku en öll Íslendingaliðin eru í kjörstöðu fyrir seinni viðureignirnar.

mbl.is