Bale neitaði að koma af bekknum

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur þvertekið fyrir það að sýna Gareth Bale, leikmanni liðsins, óvirðingu. Þvert á móti sé það Bale sjálfur sem sýni sér og félaginu óvirðingu.

Athygli vakti um helgina að Zidane sagði eftir æfingaleik við Bayern München að hann vonaðist til þess að Bale myndi yfirgefa félagið sem fyrst. Umboðsmaður leikmannsins var mjög ósáttur við þau ummæli og Zidane hefur svarað fyrir sig.

„Ég hef ekki sýnt neinum óvirðingu. Eina sem ég sagði er að félagið væri að vinna í því að koma Bale frá félaginu,“ sagði Zidane og bætti því við að Bale hafi sjálfur neitað að koma inn á sem varamaður í æfingaleiknum við Bayern.

„Gareth kom ekki inn á vegna þess að hann vildi það ekki. Hann sagði að það væri vegna þess að félagið væri að reyna að koma honum burt. Þannig er staðan, Bale er hluti af leikmannahópnum og ég mun virða það. Það er það eina sem ég hugsa um,“ sagði Zidane og útilokaði ekki að nota hann í æfingaleik við Arsenal í kvöld

Bale hefur verið orðaður við fjölmörg félög í sumar en hjólin hafa þó aldrei farið að snúast almennilega. Hann er samningsbundinn Real til 2022 og er sagður vilja fá svipuð ofurlaun hjá sínum nýju vinnuveitendum og hann hefur hjá Real.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert