Griezmann sló í gegn í fyrsta heimaleik

Antoine Griezmann fagnar öðru af tveimur mörkum sínum í kvöld.
Antoine Griezmann fagnar öðru af tveimur mörkum sínum í kvöld. AFP

Franski sóknarmaðurinn Antoine Griezmann stal senunni í sínum fyrsta heimaleik með Barcelona í kvöld, en hann skoraði þá tvö mörk í 5:2-sigri Börsunga á Real Betis.

Griezmann kom til Barcelona frá Atlético Madrid í sumar og eru miklar vonir bundnar við hann á Nývangi. Eftir að Real Betis komst yfir í kvöld jafnaði hann fyrir hlé og skoraði svo aftur snemma í síðari hálfleik. Carles Pérez og Jordi Alba bættu við mörkum áður en Griezmann lagði upp fimmta markið fyrir Arturo Vidal. Betis náði svo að laga stöðuna en niðurstaðan 5:2-sigur Barcelona.

Barcelona tapaði í fyrstu umferðinni fyrir Athletic Bilbao og er liðið nú með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina.

Atlético Madrid, fyrrum vinnuveitendur Griezmann, eru hins vegar með fullt hús eftir 1:0 sigur á Leganes á útivelli í kvöld. Þar var það Vitolo sem skoraði sigurmark Atlético.

mbl.is