Stór stund fyrir Rúnar Má á morgun

Rúnar Már Sigurjónsson með treyju Astana.
Rúnar Már Sigurjónsson með treyju Astana. Ljósmynd/Astana

Það verður stór stund fyrir landsliðsmanninn Rúnar Már Sigurjónsson annað kvöld en þá verður hann í eldlínunni með liði Astana í riðlakeppni Evrópudeildarinnar þegar það mætir Manchester United á Old Trafford.

Rúnar Már hefur verið mikill stuðningsmaður Manchester United frá unga aldri og hefur nokkrum sinnum gert sér ferð á Old Trafford.

Rúnar mun fá öflugan stuðning á Old Trafford annað kvöld en á fjórða tug ættingja hans verður á vellinum. Rúnar er í viðtali á vefsíðunni  The Athletic þar sem hann lýsir meðal annars viðbrögðum sínum þegar hann sá að Astana dróst í riðil með Manchester United. Rúnar var þá í flugvél á leið frá Hvíta-Rússlandi eftir leik á móti BATE Borisov.

Ég sá bara Manchester United og hugsaði, vá,“ segir Rúnar Már.

„Ég sá ekki hvaða tvö önnur lið voru dregin í riðilinn fyrr en klukkutíma síðar. Ég var einn í vélinni að hugsa um United og ég gat ekki rætt við nein. Þegar ég lenti sá ég hin tvö liðin sem voru með okkur og í símanum var fullt af skilaboðum frá vinum. Það vita allir með hvaða liði ég held og flestir vina minna styðja Manchester United.

Mig dreymdi aldrei um að fara á Old Trafford öðruvísi en að vera áhorfandi. Ég sá sjálfan mig sem ársmiðahafa í framtíðinni þegar ég hætti að spila en núna er ég að fara að spila þar,“ segir Rúnar Már í viðtali við The Athletic.

mbl.is