Xavi vill komast í ensku úrvalsdeildina

Xavi er stjóri Al-Sadd í Katar.
Xavi er stjóri Al-Sadd í Katar. AFP

Xavi, einn besti miðjumaður í sögu spænska landsliðsins og stórliðsins Barcelona, hefur mikinn áhuga á að verða knattspyrnustjóri Barcelona eða taka við liði í ensku úrvalsdeildinni. Xavi spilaði yfir 700 leiki fyrir Barcelona og lék 133 leiki með spænska landsliðinu. 

Xavi lagði skóna á hilluna fyrir fimm mánuðum til að taka við Al-Sadd í Katar, en hann lék með liðinu fjögur síðustu ár ferilsins. Þrátt fyrir að vera nýbyrjaður í þjálfun setur Xavi stefnuna hátt. 

„Ég ætla ekki í felur með það að markmiðið mitt er að fara aftur til Evrópu og aftur til Barcelona. Það væru forréttindi að þjálfa lið eins og Barcelona. Það er markmiðið að fara þangað, en enska úrvalsdeildin er líka spennandi. 

Ef ég þyrfti að velja lið á Englandi myndi ég auðvitað velja stórt félag. Manchester City, Manchester United, Chelsea, Arsenal eða Tottenham,“ sagði Xavi, sem annaðhvort gleymdi að nefna Liverpool eða telur það ekki vera nægilega spennandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert