Ronaldo á ennþá langt í land

Cristiano Ronaldo fagnar marki númer 700 á ferlinum.
Cristiano Ronaldo fagnar marki númer 700 á ferlinum. AFP

Cristiano Ronaldo gerði sér lítið fyrir og skoraði sitt 700. mark á ferlinum þegar Portúgal tapaði fyrir Úkraínu í undankeppni EM í knattspyrnu á Ólympíuleikvanginum í Kiev í kvöld. Markið skoraði Ronaldo úr vítaspyrnu en þetta var landsliðsmark númer 95 hjá fyrirliða Portúgals.

Ronaldo þurfti 973 leiki til þess að skora þessi 700 mörk en hann er næst markahæsti landsliðsmaður frá upphafi á eftir Írananum Ali Daei sem skoraði 109 landsliðsmörk á sínum ferli.

Samkvæmt tölfræði Rec.Sport.Soccer Statistics Foundation er Ronaldo ennþá langt á eftir Josef Bican sem var hálf tékkneskur og hálf austurrískur en hann skoraði 805 mörk á sínum ferli. Þá skoruðu brasilísku goðsagnirnar Romario og Pelé einnig mikið af mörkum.

Romario gerði 772 mörk á sínum ferli og Pelé 767 í mótsleikjum en Ronaldo er sem stendur á eftir Gerd Müller frá Þýskalandi sem er í fimmta sæti listans með 735 mörk. 

mbl.is