Mandzukic fær ekki að æfa með Juventus

Mario Mandzukic.
Mario Mandzukic. AFP

Knattspyrnumaðurinn Mario Mandzukic, framherji Juventus, æfir ekki með liðsfélögum sínum þessa daganna og hefur enn ekki spilað leik fyrir félagið á tímabilinu en hann er sagður hafa gert munnlegt samkomulag við Manchester United um að ganga til liðs við enska félagið í janúar.

Maurizio Sarri, þjálfari Juventus, staðfesti þetta á blaðamannafundi sínum fyrir leik liðsins gegn Bologna í ítölsku A-deildinni. „Hann æfir ekki með liðinu þessa stundina vegna samkomulags sem hann hefur við félagið,“ sagði Sarri en miklar vangaveltur eru um framherjann.

Ítalski fjölmiðillinn Tuttosport greindi frá því í síðustu viku að framherjinn væri búinn að gera samkomulag við United og þá segir Sky á Ítalíu að Juventus sé tilbúið að láta hann fara í janúar.

United reyndi að kaupa leikmanninn undir lok félagsskiptagluggans í ágúst en án árangurs. „Þú þarft ekki að vera sérstaklega klár til að átta þig á því að okkur vantar framherja,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, á blaðamannafundi sínum í gær fyrir leikinn gegn Liverpool á sunnudaginn. „Okkur vantar fleiri mörk í liðið en við kaupum engan nema hann sé réttur fyrir okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert