Kolbeinn sagður hafa verið handtekinn

Kolbeinn Sigþórsson.
Kolbeinn Sigþórsson. mbl.is/Hari

Fram kemur á vef Fréttablaðsins að landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson, leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins AIK, hafi verið handtekinn vegna óláta á skemmtistað.

Sænska blaðið Expressen greindi frá því fyrr í dag að leikmaður í sænsku úrvalsdeildinni hafi verið færður í fangaklefa í vikunni. Leikmaðurinn var ekki nafngreindur en í frétt Expressen segir að leikmaðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis og hafi lent í ryskingum við dyraverði á skemmtistaðnum. Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að um sé að ræða Kolbein.

Kolbeinn hefur komið við sögu í 16 leikjum AIK í sænsku úrvalsdeildinni á tímabilinu og hefur í þeim skorað tvö mörk. AIK er í fjórða sæti en deildarkeppninni lýkur á morgun.

Kolbeinn jafnaði á dögunum markametið með íslenska landsliðinu en hann skoraði sitt 26. mark í sigri gegn Andorra í undankeppni EM. Landsliðshópurinn verður tilkynntur eftir viku sem mætir Tyrklandi og Moldóvu í síðustu tveimur leikjunum í undankeppninni sem fram fara 14. og 17. þessa mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert