Henry búinn að fá nýtt starf

Thierry Henry.
Thierry Henry. AFP

Frakkinn Thierry Henry, ein af gosögnum Arsenal og franska landsliðsins í knattspyrnu, hefur verið ráðinn þjálfari kanadíska liðsins Montreal Impact sem leikur í bandarísku MLS-deildinni.

Henry gerði tveggja ára samning við kanadíska félagið. Henry átti glæsilegan feril með Arsenal og þá spilaði hann einnig með liðum eins og Juventus og Barcelona og er einn af betri framherjum í fótboltasögunni. Hann lagði skóna á hilluna árið 2014 og varð þjálfari í akademíu hjá Arsenal 2015.

Henry var ráðinn aðstoðarþjálfari belgíska landsliðsins árið 2016 og var í því starfi fram yfir HM 2018 þar sem Belgar höfnuðu í þriðja sæti. Í ágúst sama ár tók hann við þjálfun franska liðsins Monaco, félaginu sem hann hóf sinn feril hjá, en var rekinn frá félaginu í janúar á þessu ári.

mbl.is