Tyrkland líklegur áfangastaður

Viðar Örn Kjartansson gæti verið á leið til Tyrklands eftir …
Viðar Örn Kjartansson gæti verið á leið til Tyrklands eftir vonbrigðadvöl í Rússlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er búið að vera mikið í gangi hjá mér undanfarna daga,“ sagði Viðar Örn Kjartansson, framherji rússneska knattspyrnufélagsins Rostov, í samtali við mbl.is í dag en hann var kallaður til baka úr láni frá rússneska úrvalsdeildarliðinu Rubin Kazan í dag.

„Rostov kallaði mig til baka úr láni í gær og það var svo staðfest í dag. Ég er bara sáttur við þá ákvörðun og ég geri fastlega ráð fyrir því að verða seldur frá félaginu í janúar og mér finnst líklegt að það sé ástæðan fyrir því að ég hafi verið kallaður til baka úr láni.“

Viðar gekk til liðs við Rostov frá Maccabi Tel Aviv í ágúst 2018 en framherjinn viðurkennir að það hafi verið ákveðin mistök að fara til Rússlands.

„Ég get bara sagt það beint út að það voru mistök að fara til Rússlands. Ég skoðaði deildina ekki nægilega vel þegar að ég ákvað að koma hingað og það er spilaður mikill varnarbolti hérna. Það eru ekki mörg mörk skoruð hérna og ég var oft og tíðum í vandræðum með að koma mér inn í teig. Ég fékk litla þjónustu hjá Rubin Kazan og ég vil bara komast burt frá Rússlandi, svo einfalt er það.“

Viðar hefur verið atvinnumaður frá árinu 2014 og hafa nokkur tilboð borist í framherjann í janúar.

„Það er áhugi frá mörgum löndum en eins og staðan er í dag finnst mér ekki líklegt að ég fari til Svíþjóðar þótt það sé búið að orða mig einna mest við klúbba í Svíþjóð. Ég er orðinn 29 ára gamall og geri mér grein fyrir því að ég er ekki á leið í ensku úrvalsdeildina en ég vil komast á stað þar sem ég get verið næstu árin. Planið var að reyna að komast nær Íslandi en ég er í raun opinn fyrir öllu. Það eru nokkur áhugaverð tilboð frá Tyrklandi og Tyrkland er því líklegur áfangastaður í dag,“ bætti framherjinn við.

Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt mark í sextán leikjum fyrir …
Viðar Örn Kjartansson skoraði eitt mark í sextán leikjum fyrir Rubin Kazan á tímabilinu. Ljósmynd/Rubin Kazan
mbl.is