Fallið mikið áfall — Arnór ætlar að koma sterkur eftir meiðsli

Arnór Smárason á góðum degi með liði Lilleström.
Arnór Smárason á góðum degi með liði Lilleström. Ljósmynd/Lilleström

Arnór Smárason, knattspyrnumaður frá Akranesi, mun leika áfram með Lilleström í Noregi á komandi tímabili þrátt fyrir að liðið hafi fallið úr úrvalsdeildinni í árslok 2019 eftir afar dramatískt umspil við Start, undir stjórn Jóhannesar Harðarsonar, annars Skagamanns.

Lilleström, sem er frá samnefndri borg rétt austan við Ósló, leikur þar með utan norsku úrvalsdeildarinnar í fyrsta skipti í 45 ár og það eru gríðarleg viðbrigði.

„Já, það var mikið áfall að falla úr deildinni, ekki síst þar sem við vorum í baráttu um fimmta til sjötta sæti lengi framan af tímabilinu. Síðan unnum við ekki í tólf leikjum í röð seinni hluta ársins og töpuðum síðan umspilinu á ótrúlegan hátt. Liðið ætlar sér að sjálfsögðu beint aftur upp þangað sem Lilleström á heima,“ sagði Arnór þegar mbl.is ræddi við hann um stöðu liðsins og framtíðina hjá honum.

Arnór er samningsbundinn Lilleström út komandi tímabil og eyðir nú vetrinum í að reyna að fá sig góðan af þrálátum meiðslum.

„Staðan á mér er sú að ég er að jafna mig eftir vöðvarof og er búinn að vera í endurhæfingu sem mun halda áfram eitthvað fram á vorið. Ég spilaði mikið meiddur á síðasta tímabili og ætla að gefa þessu tíma núna og koma sterkur aftur inn. Ég vonast til að vera kominn á ról aftur í apríl ef allt gengur vel,“ sagði Arnór og kvaðst síðan ætla að skoða næstu skref sín á ferlinum.

„Ég einbeiti mér að því að verða hundrað prósent heill, komast vel af stað aftur með liðinu og svo tek ég aftur stöðuna á mínum málum í sumar,“ sagði Arnór við mbl.is.

Arnór Smárason í landsleik gegn Indónesíu í janúar 2018.
Arnór Smárason í landsleik gegn Indónesíu í janúar 2018. AFP


Arnór er 31 árs gamall miðju- eða sóknarmaður og á að baki hálft annað ár í röðum Lilleström en hann hefur skorað 11 mörk í 37 leikjum fyrir liðið í norsku úrvalsdeildinni. Hann lék áður með Hammarby og Helsingborg í Svíþjóð, Torpedo í Rússlandi og Esbjerg í Danmörku en hóf atvinnuferilinn hjá Heerenveen í Hollandi þar sem hann var frá 15 ára aldri og var hjá félaginu í sex ár. Samtals á Arnór að baki 248 deildaleiki á ferlinum og hefur skorað í þeim 54 mörk.

Arnór hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár, spilað 26 landsleiki, síðast gegn Svíum og Eistum í janúar 2019, og hefur skorað í þeim þrjú mörk.

mbl.is