Sara myndi henta Barcelona vel

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mbl.is/Hari

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu, myndi henta Spánarmeisturum Barcelona afar vel, segir í umfjöllun spænska netmiðilsins Sport.es um mögulega komu Íslendingsins til Katalóníu í sumar.

Samningur Söru við Wolfsburg rennur út í sumar og eins og áður hefur komið fram ákvað hún fyrir nokkru að endurnýja hann ekki.

Sport segir að Sara sé einn mikilvægasti leikmaður Wolfsburg og ljóst sé að stórlið eins Chelsea, Evrópumeistarar Lyon og Barcelona vilji fá hana en það gæti hentað henni sérstaklega vel að fara til Barcelona þar sem franska landsliðskonan Kheira Hamraoui, lykilmaður á miðju liðsins, yfirgefi það nær örugglega að þessu tímabili loknu.

Þá hafi Barcelona leitað áður á sömu slóðir því síðasta sumar hafi það fengið til sín norsku landsliðskonuna Caroline Graham Hansen þegar samningur hennar við Wolfsburg rann út.

Barcelona er með niu stiga forystu á Atlético Madrid á toppi spænsku 1. deildarinnar og hefur ekki tapað í fyrstu 19 leikjum sínum. Deildin á Spáni er sú stærsta í Evrópu en þar leika sextán lið á meðan liðin eru t.d. tólf í efstu deildum Þýskalands, Englands og Frakklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert