Forsetinn flúði land - stuðningsmenn reyna að halda félaginu á floti

Hólmar Örn Eyjólfsson hefur leikið með Levski Sofia í Búlgaríu …
Hólmar Örn Eyjólfsson hefur leikið með Levski Sofia í Búlgaríu frá árinu 2018. Ljósmynd/Levski

„Stuðningsmenn liðsins hafa verið ótrúlegir undanfarna mánuði og eru búnir að bjarga félaginu algjörlega,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson landsliðsmaður í knattspyrnu við Morgunblaðið í gær en félag hans, Levski Sofia, rambar á barmi gjaldþrots eftir að eigandinn flúði land.

Búlgarski auðjöfurinn Vasil Bojkov, sem er talinn ríkasti maður Búlgaríu, hefur margoft verið orðaður við margskonar ólöglega starfsemi. Hann gerðist aðaleigandi Levski Sofia, sögufrægasta félags Búlgaríu, á síðasta ári. Bojkov dvelur nú í Sameinuðu arabísku furstadæmunum en búlgörsk yfirvöld vilja fá hann framseldan til að rétta yfir honum.

Bojkov hefur svarað þeim fullum hálsi og m.a. boðist til að gefa forsætisráðherra landsins, Boyko Borissov, sinn hlut í Levski, enda hafi forsætisráðherrann á ólöglegan hátt lagt undir sig þau fyrirtæki sem séu lífæð félagsins. Borissov mun sjálfur vera stuðningsmaður Levski en hefur hafnað „tilboði“ Bojkovs, sem m.a. átti þjóðarlottóið í Búlgaríu en Borissov og ríkisstjórn hans hafa nú yfirtekið reksturinn á lottóinu.

„Þetta tilboð er móðgun og niðurlægjandi, og það er fáránlegt að senda svona lagað frá sér,“ sagði talsmaður forsætisráðherrans samkvæmt frétt Balkan Insight.

Málshöfðun í mörgum liðum

Búlgarskur saksóknari höfðaði mál á hendur Bojkov snemma á þessu ári fyrir skipulagða glæpastarfsemi, fjárkúgun, hótanir, skattsvik og tilraun til að múta opinberum aðila. Bojkov segir að allur málatilbúnaður búlgarska ríksins á hendur sér sé uppspuni. Yfirvöld séu að reyna að sölsa undir sig allan sinn rekstur. Í yfirlýsingu sem hann sendi fréttastofu Bloomberg sagði Bojkov að hann og fyrirtæki sín hefðu staðið skil á öllum sínum sköttum til búlgarska ríkisins og enginn væri sekur fyrr en sekt hans hefði verið sönnuð í dómsal.

„Stuðningsmennirnir hafa staðið fyrir alls konar söfnunum, keypt miða á „sýndarleiki“ sem fóru ekki fram vegna kórónuveirunnar, og maður er búinn að heyra ítrekað á undanförnum mánuðum að í næstu viku verði félagið gjaldþrota. En stuðningsmennirnir ná alltaf að safna saman nægilega miklum peningum til að halda þessu gangandi, sem er hreint með ólíkindum,“ sagði Hólmar.

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert