Vilja hefja keppni á nágrannaslag

Álvaro Morata (t.v.) og Marcos Llorente á æfingu hjá Atletico …
Álvaro Morata (t.v.) og Marcos Llorente á æfingu hjá Atletico Madrid í vikunni. Nú styttist í að þeir geti byrjað að spila. AFP

Í kjölfar þess að spænska knattspyrnan má fara af stað á ný frá og með 8. júní vonast forseti deildakeppninar eftir því að geta byrjað hana á nágrannaslag að kvöldi fimmtudagsins 11. júní.

Knattspyrnunni á Spáni var frestað um óákveðinn tíma frá og með 12. mars vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og vegna þess hve illa hún hefur leikið landið á undanförnum vikum var mikil óvissa um hvenær hægt yrði að hefja keppni á ný.

Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar tilkynnti hins vegar um helgina að fótboltinn í landinu mætti fara af stað frá og með 8. júní, rétt eins og margs konar önnur starfsemi á Spáni.

Spænsku liðin í efstu tveimur deildunum hafa æft í litlum hópum að undanförnu og mega æfa af fullum krafti frá og með 1. júní.

„Við stefnum að því að gefa út fyrstu fjórar umferðirnar í vikunni. Það er mögulegt að við getum byrjað 11. júni, og þá yrði einn leikur það kvöld. Kannski gætum við þar minnst sérstaklega allra þeirra sem hafa látið lífið. Ég vona að við getum staðfest þessa dagsetningu og við viljum helst að þetta sé nágrannaslagurinn í Sevilla, sem myndi hefjast klukkan tíu um kvöldið,“ sagði Tebas við spænsku sjónvarpsstöðina Movistar í kvöld.

Sevilla er í þriðja sæti 1. deildarinnar, La Liga, á eftir Barcelona og Real Madrid, en grannliðið Real Betis er í tólfta sæti af tuttugu liðum í deildinni.

mbl.is