Var ekki hleypt í mikilvæga aðgerð

Kieran Trippier.
Kieran Trippier. AFP

Enski knatt­spyrnumaður­inn Kieran Trippier segist allt annar leikmaður eftir að hann fór í aðgerð á nára í vetur en hann spilar með liði Atlético Madríd á Spáni. Bakvörðurinn skipti til Spánar frá Tottenham á Englandi síðasta sumar og hann vandar sínu gamla félagi ekki kveðjurnar.

„Ég er miklu betri leikmaður núna en í fyrra með Tottenham. Á síðustu leiktíð átti ég í alls kyn erfiðleikum vegna meiðsla,“ sagði Trippier í viðtali við the Mirror en hann hefur spilað 26 leiki fyrir Atlético á tímabilinu eftir að hafa verið keyptur á um 20 milljónir punda.

„Þetta er engin afsökun en ég var í vandræðum í marga mánuði með nárann. Ég þurfti að fara í aðgerð en þeir hjá Tottenham vildu ekki hleypa mér í hana, þess vegna var þetta svona erfitt.“

mbl.is