Vonast eftir stuðningsmönnum á Ítalíu

Juventus og Inter Mílanó eru í harðri baráttu um ítalska …
Juventus og Inter Mílanó eru í harðri baráttu um ítalska meistaratitilinn þegar tólf umferðir eru eftir af tímabilinu þar í landi. AFP

Gabriele Gravina, forseti ítalska knattspyrnusambandsins, vonast til þess að áhorfendur og stuðningsmenn geti snúið aftur á völlinn áður en tímabilið er á enda þar í landi en þetta kom fram í samtali hans við ítölsku úrvarpsstöðina Radio 24. Ítalska A-deildin fer aftur af stað 20. júní en deildin hefur verið í hléi síðan 8. mars síðastliðinn vegna kórónuveirufaraldursins.

Alls eru tólf umferðir eftir af tímabilinu á Ítalíu en eins og staðan er í dag munu allir leikir deildarinnar fara fram fyrir luktum dyrum. „Ég vona innilega að stuðningsmenn geti mætt á lokaleiki deildarinnar,“ sagði Gravina í samtali við BBC. „Það er hins vegar erfitt að sjá það fyrir sér að við verðum með áhorfendur á leikjum okkar eins og staðan er í dag.

Við erum að gera mikla ráðstafanir til þess að draga úr smithættu. Eins og staðan er í dag þá megum við ekki vera með ákveðinn fjölda í stúkunni en það er hægt að gera ráðstafanir varðandi það, hólfa leikvanginn betur niður, og passa upp á bil á milli fólks en við erum ekki komin svo langt enn þá,“ bætti Gravina við.

Mikil spenna er í ítölsku A-deildinni þessa stundina en Juventus er í efsta sæti deildarinnar með 63 stig eftir 26 spilaða leiki. Lazio kemur þar á eftir með 62 stig og Inter Mílanó er í þriðja sætinu með 54 stig en á leik til góða á bæði Juventus og Lazio. Juventus hefur unnið ítölsku A-deildina undanfarin átta ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert