Fáránlegt að láta sér detta þetta í hug

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, ræddi við Valtý Björn Valtýsson í útvarpsþættinum Mín skoðun á Sport FM í dag. Ræddi Sigmundur fyrst og fremst um merkið sem KSÍ mun nota framan á landsliðstreyjum og þá gagnrýni sem merkið hefur fengið. 

Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt merkið harðlega er Illugi Jökulsson, en hann líkti því við fasisma á Facebook í kjölfar þess að KSÍ sendi frá sér myndband þar sem merkið var kynnt. Sigmundur er ekki sáttur við þá gagnrýni en hann er ánægður með merkið, þar sem landvættirnir eru í aðalhlutverki. 

„Það er skrítið þegar fólk er farið að gagnrýna mann fyrir að vera jákvæður á söguna og landsliðið. Mér finnst þetta merki mjög vel hannað, það er nútímalegt og klassískt í senn og flott myndband sem fylgir til að skýra tenginguna við söguna. Þetta var stemningsmyndband sem maður hefði haldið að allir landsmenn gætu sameinast um, en þá kemur þessi hópur. Það er ákveðinn hópur sem finnur öllu sögulegu, þjóðlegu og skemmtilegu til foráttu. Þetta er ekki íslenskt fyrirbæri en þetta er að ágerast mjög. Neikvæðni út í alla sögu og hefðir,“ sagði Sigmundur áður en hann hélt áfram. 

„Ég átti samt ekki von á því að það að íslenska landsliðið myndi nota öll helstu þjóðartáknin Íslendinga til árhundruða myndi skapa neikvæða umræðu. Við erum heppin að eiga mjög langa og merkilega sögu og eiga þessi þjóðtákn, fræg frá miðöldum og í skjaldamerkinu sjálfu. Mér fannst það mjög vel til fundið hjá KSÍ að nota þetta flotta merki og búa til smá stemningu í kringum það.“

Valtýr spurði Sigmund sérstaklega út í mögulegan fasisma um merkið og myndbandið sem fylgdi þegar það var kynnt. „Það er fáránlegt að láta sér detta það í hug þegar við erum að tala um sögu sem nær langt aftur fyrir hreyfingar fyrri hluta 20. aldar. Það eru mörghundruð ár síðan þetta var að þekktu þjóðartákni en með vilja er hægt að tengja allt við það allra versta,“ sagði Sigmundur. 

Myndbandið má sjá hér fyrir neðan, sem og treyjuna. 

Nýja íslenska landsliðstreyjan.
Nýja íslenska landsliðstreyjan. Ljósmynd/KSÍ
mbl.is

Bloggað um fréttina