Bayern og Barcelona örugg áfram

Leikmenn Bayern fagna í kvöld.
Leikmenn Bayern fagna í kvöld. AFP

Bayern München og Barcelona leika til fjórðungsúrslita í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu eftir örugga sigra í einvígum sínum í 16-liða úrslitunum í kvöld. Bayern vann 4:1-heimasigur á Chelsea, einvígið samtals 7:1, og Barcelona vann 3:1-sigur á Napoli í Katalóníu, einvígið samtals 4:1.

Bæjarar voru í þægilegri stöðu fyrir leik kvöldsins en þeir unnu Chelsea 3:0 í þeirra eigin bakgarði, á Stamford Bridge í Lundúnum, í mars. Ekkert hefur verið leikið í Meistaradeildinni í fimm mánuði vegna kórónuveirunnar.

Robert Lewandowski skoraði tvö mörk fyrir Bayern í kvöld og þeir Ivan Perisic og Corentin Tolisso eitt hvor. Mark Chelsea skoraði Tammy Abraham en lærisveinar Franks Lampards voru aldrei nálægt því að snúa taflinu við í kvöld.

Þá er Barcelona áfram eftir nokkuð öruggan sigur gegn Napoli en liðin skildu jöfn, 1:1, á Ítalíu í fyrri leik liðanna í vetur. Börsungar voru þó sterkari í kvöld og náðu þriggja marka forystu í fyrri hálfleik. Clément Lenglet og Lionel Messi skoruðu fyrstu tvö mörkin og Luis Suárez bætti svo við þriðja markinu úr vítaspyrnu. Lorenzo Insigne klóraði í bakkann fyrir gestina úr vítaspyrnu en nær komust þeir ekki.

Nú færist keppnin öll til Lissabon, höfuðborg­ar Portú­gals, og fyr­ir­komu­lag­inu breytt í hraðmót sem minn­ir á stór­mót landsliða. Verður ann­ars veg­ar leikið á José Al­vala­de-vell­in­um, heima­velli Sport­ing, og hins veg­ar Da Luz-vell­in­um, heima­velli Ben­fica. Mæt­ast lið aðeins einu sinni í átta liða úr­slit­um og undanúr­slit­um í stað þess að leika tvo leiki.

Bayern og Barcelona mætast einmitt í fjórðungsúrslitunum, í Lissabon 14. ágúst. 
Manchester City mæt­ir ein­mitt Lyon í fjórðungs­úr­slit­um í Lissa­bon 15. ág­úst. Átta liða úr­slit­in verða spiluð frá 12.-15. ág­úst, einn leik­ur á dag, og sömu sögu er að segja um undanúr­slit­in 18.-19. ág­úst. Þá fer úr­slita­leik­ur­inn fram 23. ág­úst á heima­velli Ben­fica.

Fjórðungsúrslitin
Manchester City - Lyon
RB Leipzig - Atlético Madríd
Barcelona - Bayern München
Atalanta - PSG

Luis Suárez skoraði eitt marka Barcelona.
Luis Suárez skoraði eitt marka Barcelona. AFP
Meistaradeildin í beinni opna loka
kl. 20:58 Leik lokið Bayern og Barcelona fara örugglega áfram í 8-liða úrslitin sem hefjast í Portúgal í næstu viku!
mbl.is