Albert fetar í fótspor Kolbeins

Albert Guðmundsson fagnar með samherjum sínum eftir að hafa skorað …
Albert Guðmundsson fagnar með samherjum sínum eftir að hafa skorað gegn Rijeka. AFP

Albert Guðmundsson varð í fyrrakvöld annar Íslendingurinn og sá fyrsti í tíu ár til að skora tvö mörk í leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta.

Albert gerði þá bæði mörk hollenska liðsins AZ Alkmaar í heimasigri á Rijeka frá Króatíu, 4:1, og skoraði þar með sín fyrstu mörk í riðlakeppninni.

Sá eini sem hefur áður leikið þennan leik er Kolbeinn Sigþórsson og það gerði hann einmitt líka fyrir AZ Alkmaar. Það var 15. desember árið 2010, eða fyrir rétt tæpum áratug, en Kolbeinn, sem þá var á sínu fyrsta tímabili í aðalliði AZ, skoraði tvö marka liðsins þegar það vann BATE Borisov frá Hvíta-Rússlandi, 3:0, á heimavelli.

Fimm skorað fyrir AZ

Albert er sextándi Íslendingurinn sem skorar í riðlakeppni eða útsláttarkeppni Evrópudeildar UEFA frá því núverandi keppnisfyrirkomulag var tekið upp árið 2004. Leikið er í riðlum, eftir fjórar umferðir í undankeppni, og eftir það útsláttarkeppni frá 32ja liða úrslitum.

AZ Alkmaar kemur mest við sögu hjá Íslendingum í þessari keppni því fimm af þeim sextán íslensku fótboltamönnum sem hafa skorað í henni hafa gert það í búningi AZ.

Jóhann Berg Guðmundsson skoraði fjögur mörk fyrir liðið í riðlakeppninni, Kolbeinn Sigþórsson þrjú, Albert er kominn með tvö og þeir Grétar Rafn Steinsson og Aron Jóhannsson gerðu sitt markið hvor fyrir AZ í riðlakeppninni. Sjötti Íslendingurinn sem hefur leikið með AZ í Evrópudeildinni er Jóhannes Karl Guðjónsson.

Greinin í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert