Þjóðarsorgin verður lengri en þrír dagar

Argentínski knattspyrnusnillingurinn Diego Armando Maradona sálaðist á heimili sínu í Buenos Aires í gær sextugur að aldri. Raunar nýorðinn sextugur. Ófáir fjölmiðlarnir fluttu fréttir af stórafmælinu hinn 30. október. Ekki löngu síðar var sagt frá því að Maradona hefði farið í aðgerð vegna blóðtappa við heila sem þótti vel heppnuð. Hann hafði því verið útskrifaður af sjúkrahúsi þegar hjartaáfall dró hann til dauða samkvæmt argentínskum fjölmiðlum.

Maradona var í guðatölu í Argentínu og lýsti forseti landsins, Alberto Fernandez, yfir þriggja daga þjóðarsorg í gær. Táknræn aðgerð en vafalaust verða tilfinningaheitir samlandar Maradona öllu lengur að syrgja hetjuna. Ef til vill er því of oft hent fram af fólki í minni stétt að íþróttakempur séu í guðatölu. Þetta eru jú bara íþróttir. En í tilfelli Maradona er það nú bara býsna nákvæmt því Kirkju Maradona, La Iglesia Maradoniana, var komið á fót á 38 ára afmælisdegi Maradona. Kirkjan sjálf er í Rosario en formlegir meðlimir í söfnuðinum eru víða í Argentínu. Eru þeir fleiri en íbúar Reykjavíkur en því hefur verið haldið fram að allt að 200 þúsund manns séu í söfnuðinum.

Langvinsælastur

Maradona var langvinsælasti íþróttamaðurinn í Argentínu. Ólst upp í fátækt í einu úthverfa Buenos Aires en menn voru ekki lengi að koma auga á að þarna væri á ferðinni einhvers konar undrabarn í knattspyrnu. Á barnsaldri fékk hann tækifæri til að vera boltastrákur á leikjum Boca Juniors en skemmti um leið áhorfendum í leikhléi með knatttækni sinni. Síðar sló hann í gegn sem leikmaður liðsins.

Afrekum Maradona verða ekki gerð tæmandi skil í grein sem þessari. Hvort sem það er framganga hans innan vallar eða utan. Ofboðslegar vinsældir hans í heimalandinu má rekja til þess árangurs sem landsliðið náði með Maradona sem fyrirliða. Þar skipta tímasetningarnar einnig máli. Andrúmsloftið í Argentínu var ögn sérstakt þegar kom að heimsmeistarakeppninni í Mexíkó árið 1986. 

Greinina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Það ríkir þjóðarsorg í Argentínu eftir fráfall Maradona.
Það ríkir þjóðarsorg í Argentínu eftir fráfall Maradona. AFP
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert