Dönsk smit gætu reynst dýrkeypt

Nadia Nadim er lykilmaður í danska landsliðinu.
Nadia Nadim er lykilmaður í danska landsliðinu. AFP

Tvær danskar landsliðskonur í fótbolta hafa greinst með kórónuveiruna og verða því ekki með danska liðinu gegn því ítalska í undankeppni EM á morgun. Um er að ræða Nadiu Nadim og Simone Boye. Þá hefur aðstoðarlandsliðsþjálfarinn Kristan Rasmussen einnig greinst með veiruna að sögn Ekstra Bladet.

Um mikið áfall fyrir danska liðið er að ræða en Boye leikur með Bayern München og Nadim með PSG í Frakklandi. Fjarvera þeirra getur haft sitt að segja í baráttu Íslands við að sleppa við umspil og fara beint á EM, því Ítalía kemst í betri stöðu en Ísland með því að ná stigi eða stigum gegn Danmörku. Ljóst er að möguleikar Ítalíu eru meiri í fjarveru Nadim og Boye.

Ítalía er í öðru sæti B-riðils og Ísland í öðru sæti F-riðils. Liðin í efsta sæti í hverjum riðli fara beint á EM og þau þrjú lið með bestan árangur í öðru sæti sömuleiðis, en önnur lið sem enda í öðru sæti fara í umspil. Danir hafa þegar tryggt sér toppsæti B-riðils og Svíar toppsæti F-riðils. 

Þá geta smitin líka haft mikið að segja í baráttunni um norska meistaratitilinn því dönsku landsliðskonurnar Stine Pedersen, Janni Thomsen og Rikke Madsen leika allar með Vålerenga, eins og Ingibjörg Sigurðardóttir í íslenska landsliðinu. Þátttaka þeirra í lokaumferð norsku úrvalsdeildarinnar er í óvissu vegna smitanna en Vålerenga mætir Arna-Bjørnar í lokaumferðinni 6. desember næstkomandi.

Vålerenga er í toppsæti deildarinnar með 35 stig, jafnmörg og Rosenborg og einu stigi á undan Avaldsnes sem Hólmfríður Magnúsdóttir leikur með. Geta smitin því bæði haft áhrif á baráttu Íslands um að komast á EM og baráttu Vålerenga í norsku titilbaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert