Fimmti sigur tímabilsins

Kristófer Ingi Kristinsson í leik með U21 árs landsliði Íslands.
Kristófer Ingi Kristinsson í leik með U21 árs landsliði Íslands. mbl.is/Hari

Jong PSV vann sinn fimmta sigur á tímabilinu þegar liðið heimsótti Dordrecht í hollensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Jong PSV en Kristófer Ingi Kristinsson lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Jong PSV.

Julius Bliek í liði Dordrecht varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiks en Gianni Dos Santos jafnaði metin fyrir Dordrecht í upphafi síðari hálfleiks.

Mathias Kjölö og Nigel Thomas skoruðu hvor sitt markið fyrir Jong PSV um miðjan síðari hálfleikinn áður en Kevin Jansen minnkaði muninn fyrir Dordrecht á 84. mínútu.

Jong PSV er í sextánda sæti B-deildarinnar rmeð 19 stig eftir 19 leiki en Kristófer Ingi hefur verið fastamaður í liðinu á tímabilinu.

mbl.is