Meistararnir úr leik eftir mikla dramatík

Það var mikið fagnað í Kiel í kvöld.
Það var mikið fagnað í Kiel í kvöld. AFP

Evrópumeistarar Bayern München eru úr leik í þýsku bikarkeppninni í knattspyrnu eftir tap gegn B-deildarliði Holstein Kiel í vítakeppni í 2. umferð keppninnar í Kiel í kvöld.

Serge Gnabry kom Bayern yfir strax á 14. mínútu en Fin Bartels jafnaði metin fyrir Holstein Kiel á 37. mínútu. 

Leroy Sané kom Bayern yfir á nýjan leik á 48. mínútu en Hauke Wahl jafnaði metin í uppbótartíma fyrir Holstein Kiel og leikurinn því framlengdur.

Hvorugu liðinu tókst að skora og því var gripið til vítakeppni þar sem liðin skiptust á að skora. Bæði lið nýttu allar fimm vítaspyrnur sínar og því var gripið til bráðabana.

Marc Roca brenndi af sjöttu spyrnu Bæjara á meðan Fin Bartels skoraði fyrir Holstein Kiel og þýska B-deildarfélagið fer því áfram í þriðju umferðina.

Bayern München er ríkjandi bikarmeistari og hefur unnið þýsku bikarkeppnina undanfarin tvö tímabil en ekkert lið hefur unnið bikarinn oftar eða tuttugu sinnum. Werder Bremen kemur þar á eftir með sex sigra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert