Atalanta skellti toppliðinu

Duvan Zapata fagnar marki sínu í dag.
Duvan Zapata fagnar marki sínu í dag. AFP

Atalanta gerði sér lítið fyrir og vann topplið AC Milan örugglega á San Siro-vellinum í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í dag. Leiknum lauk með 3:0 sigri Atalanta.

Fyrsta markið gerði miðvörðurinn Cristian Romero á 26. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir að hafa fengið góða fyrirgjöf inn í teiginn frá Robin Gosens í kjölfar stuttrar hornspyrnu.

Staðan í hálfleik var 1:0 og snemma í síðari hálfleik tvöfaldaði Atalanta forystu sína. Þá braut Franck Kessie illa á Josip Ilicic inni í vítateig og vítaspyrna réttilega dæmd, auk þess sem Kessie fékk gult spjald. Ilicic steig sjálfur á vítapunktinn og skoraði af öryggi, 2:0.

Á 77. mínútu kláraði Atalanta leikinn endanlega. Þá átti miðvörðurinn Romero góða sendingu inn fyrir á framherjann Duvan Zapata, sem var sloppinn í gegn og kláraði örugglega framhjá Gianluigi Donnarumma í marki AC Milan.

3:0 lokatölur og Atalanta komið upp í fjórða sæti deildarinnar.

AC Milan heldur þrátt fyrir tapið toppsætinu þar sem grannar þeirra í Inter misstigu sig á sama tíma með því að gera markalaust jafntefli gegn Udinese.

Inter er nú tveimur stigum á eftir AC Milan í öðru sæti deildarinnar.

mbl.is