Vonast eftir tækifæri með landsliðinu

Hólmbert Aron Friðjónsson.
Hólmbert Aron Friðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég byrjaði að æfa aftur 10. janúar með bolta og er í raun bara búinn að vera að taka litla útgáfu af eigin undirbúningstímabili enda langt síðan maður spilaði síðast,“ sagði Hólmbert Aron Friðjónsson, framherji ítalska knattspyrnufélagsins Brescia, í samtali við mbl.is.

„Ég er kominn í mjög gott stand og búinn að vera að koma inn á í einhverjum leikjum núna undanfarnar vikur. Ég er hægt og rólega að bæta mínútum í safnið og ég tel mig vera tilbúinn í 90 mínútur.

Ég hef æft hrikalega vel og er í eins góðu formi og hægt er að vera, æfingalega séð. Það hefur verið smá rót á þjálfurum síðan ég kom til félagsins og þetta er því aðeins öðruvísi en maður er vanur. Ég er hins vegar í góðu sambandi við núverandi þjálfara og sannfærður um að ég muni fá mín tækifæri á næstu viku,“ bætti Hólmbert við en hann er 27 ára gamall og hefur komið við sögu í sex leikjum Brescia eftir áramótin.

Hólmbert í leik með Aalesund á síðustu leiktíð.
Hólmbert í leik með Aalesund á síðustu leiktíð. Ljósmynd/Aalesund

Líður vel á Ítalíu

Hólmbert var meiddur þegar hann gekk til liðs við Brescia í byrjun október á síðasta ári.

„Ég meiðist í september og byrjaði ekki að hlaupa af neinu viti fyrr en í lok desember. Þá var ég ekki búinn að hlaupa í fjóra mánuði og það tók smá tíma að koma sér í gang aftur.

Mér líður hins vegar virkilega vel í dag, bæði andlega og líkamlega, en þetta var vissulega meira vesen en ég átti von á. Á sama tíma er ég búinn að koma mér vel fyrir þarna og mér líður virkilega vel á Ítalíu,“ en Brescia er í fjórtánda sæti ítölsku B-deildarinnar.

Frá æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í september.
Frá æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í september. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mikill heiður

Framherjinn á að baki fjóra A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk en hann var hluti af landsliðshópi Eriks Hamréns í landsleikjaglugganum í september á síðasta ári þar sem hann skoraði gegn Belgíu í Þjóðadeild UEFA í Brussel.

„Ég vonast til að fá tækifæri í byrjunarliðinu hjá Brescia í næstu leikjum og auðvitað væri gaman að vera hluti af fyrsta landsliðshópi Arnars.

Ég stóð mig vel síðast þegar ég var í hópnum og vonandi lítur hann til þess en auðvitað snýst þetta líka um að vera að spila með félagsliði sínu.

Að spila fyrir land og þjóð er mikill heiður og nokkuð sem hef alltaf lagt mikla áherslu á,“ bætti Hólmbert við.

mbl.is