Búinn að skrifa undir á Ítalíu

Hólmbert Aron Friðjónsson er að ganga til liðs við Brescia …
Hólmbert Aron Friðjónsson er að ganga til liðs við Brescia á Ítalíu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hólmbert Aron Friðjónsson hefur skrifað undir samning við ítalska B-deildarfélagið Brescia samkvæmt heimildum mbl.is.

Framherjinn öflugi mun fljúga til Ítalíu á morgun en hann kemur til félagsins frá norska úrvalsdeildarfélaginu Aalesund þar sem hann hefur leikið frá árinu 2018.

Hólmbert hefur verið frábær fyrir Aalesund á tímabilinu og er fimmti markahæsti leikmaður norsku úrvalsdeildarinnar með 11 mörk á tímabilinu en Aalesund er nýliði í efstu deild.

Aalesund hefur hins vegar ekki gengið jafn vel í deildinni en liðið er í sextánda og neðsta sæti deildarinnar með 7 stig.

Hólmbert átti þrjá mánuði eftir af samningi sínum við norska félagið sem ákvað að selja hann í vikunni en hann hefur skorað 38 mörk í 76 leikjum fyrir félagið í öllum keppnum.

Þá á framherjinn, sem er uppalinn hjá HK í Kópavogi, fjóra A-landsleiki að baki þar sem hann hefur skorað tvö mörk og gerði mark Íslands gegn Belgíu í Þjóðadeild UEFA í síðasta mánuði. Hólmbert hefur leikið með HK, Fram, KR og Stjörnunni hér á landi.

Brescia féll úr ítölsku A-deildinni á síðustu leiktíð og leikur því í B-deildinni í vetur en Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er einnig samningsbundinn Brescia.

mbl.is