Braut Zlatan sóttvarnareglur?

Zlatan Ibrahimovic lék með AC Milan gegn Parma í gær …
Zlatan Ibrahimovic lék með AC Milan gegn Parma í gær en var rekinn af velli. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic sem leikur með AC Milan er sagður hafa brotið ítalskar sóttvarnareglur.

Tano Simonato, vinur Zlatans, á veitingahús í Mílanó og staðfesti við netmiðilinn „Fanpage“ að Svíinn hefði heimsótt sig ásamt samherja sínum Ignazio Abate. Hann neitar hinsvegar fregnum um að þeir hafi snætt saman, enda væri það ólöglegt. Þeir hafi bara drukkið vínglas, spjallað í rúmlega klukkutíma og síðan hafi Zlatan og Ignazio kvatt og farið heim.

Mílanó er „rautt svæði“ á Ítalíu. Þar er útgöngubann og veitingahús eru lokuð að öðru leyti en því að þau mega senda mat í heimahús. Þremenningarnir eiga yfir höfði sér fjársektir ef þeir verða uppvísir að því að hafa brotið reglur.

MilanNews segir að þremenningarnir hafi hist í viðskiptaerindum og rætt saman í klukkutíma. Sjálfur er Zlatan búinn að fá kórónuveiruna, hann var frá keppni af völdum hennar í haust, en hefur skorað 17 mörk og lagt upp þrjú til viðbótar í 25 leikjum með AC Milan í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert